Hvað er Grænfáninn?

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þegar því marki er náð fá skólarnir leyfi til að flagga Grænfánanum næstu tvö ár en sú viðurkenning fæst endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.

Ársól á grænni grein

Ársól lagði inn umsókn til Landverndar um þátttöku í Grænfánaverkefninu í október 2010 og varð þá 189. skólinn á Íslandi til að komast á græna grein. Ársól valdi að vinna með þemun úrgang og lýðheilsu fyrir þessa fyrstu umsókn um Grænfána og við fengum fyrsta Grænfánann afhentan 25. september 2015. Haldið var áfram að vinna með sömu þemu og markmið og áður eftir flutninga leikskólans í nýtt húsnæði sumarið 2016. Á níu ára afmælisdegi leikskólans, 19.febrúar 2018, var leikskólanum úthlutað öðrum Grænfána og við tók vinna að nýjum markmiðum. Ákveðið var að vinna með þemun lífbreytileika og vatn og vonast leikskólinn eftir að fá úthlutað sínum þriðja Grænfána í maí 2020.

Grænfáninn 2018-2020

Eftir mikla ígrundun setti Ársól sér sex markmið til að vinna með fram að næstu úthlutun.

  • 1.Grænfánavegg – Að setja upp Grænfánavegg þar sem börnin fá að útbúa „grænar hendur“ fyrir rammann. Á Grænfánavegginn skyldi setja upp viðurkenningu leikskólans í verkefninu, markmið leikskólans fyrir núverandi tímabil og fróðleik um þau þemu sem leikskólinn er að vinna með.
  • 2.Heimasíðan – Að bæta við upplýsingum um Grænfánann, uppfæra upplýsingar um Ársól á grænni grein og setja inn fróðleik um þemu og markmið sem leikskólinn hefur sett sér fyrir núverandi tímabil.
  • 3.Fuglahús – Útbúa fuglapall og setja upp á lóð leikskólans. Börnin fá tækifæri til þess að gefa fuglunum að borða brauð- og ávaxtaafganga yfir veturinn.
  • 4.Læra um Krumma – Skoða myndir af hrafni og læra hvað hann heitir, hvernig hann er á litinn og hvaða hljóð hann gefur frá sér. Þá skyldu börnin einnig fá að skoða fjöður af krumma og fá að fylgjast með honum í nánasta umhverfi leikskólans. Að lokum skyldi vera sett áhersla á að syngja krumma-vísur.
  • 5.Vatn í fljótandi formi – Börnin skyldu reglulega fá að sulla með vatn í kari, þrífa hendur í vaski og skoða rigningu.
  • 6.Vatn í föstu formi – Börnin skyldu reglulega fá að leika með snjó í kari, leika með klaka og fá að bræða hann og skoða snjó og klaka í útiveru.

Fróðleikur um þemu:

Vatn

Vatn er undirstaða alls lífs á Jörðinni og er eitt af því sem skapar sérstöðu Jarðarinnar. Vatn er eitt af þemum Skóla á grænni grein.

Hvað er vatn?

Vatn er undirstaða alls lífs á Jörðinni og er eitt af því sem skapar sérstöðu Jarðarinnar. Um ¾ hlutar Jarðarinnar eru þaktir vatni og eru lífverur að stórum hluta úr vatni, t.d. erum við manneskjur um 67% vatn. Vatnið á Jörðinni er takmörkuð auðlind að því leyti að það endurnýjast ekki heldur er það í stöðugri hringrás sem drifin er áfram af sólinni.

Af hverju er mikilvægt að vinna með þemað vatn?

Vatn er undirstaða alls lífs á Jörðinni og er eitt af því sem skapar sérstöðu Jarðarinnar. Um ¾ hlutar Jarðarinnar eru þaktir vatni og eru lífverur að stórum hluta úr vatni, t.d. erum við manneskjur um 67% vatn. Vatnið á Jörðinni er takmörkuð auðlind að því leyti að það endurnýjast ekki heldur er það í stöðugri hringrás sem drifin er áfram af sólinni.

Flest tökum við vatni sem sjálfsögðum hlut og veltum lítið fyrir okkur þeim lífsgæðunum sem felast í því að skrúfa frá krana og fá sér sopa af hreinu, ísköldu vatni. Á sama tíma er fólk annars staðar í heiminum sem þarf að ganga langar leiðir til að sækja vatn til heimilisins, sem jafnvel er ekki hreint. Það er því afar brýnt að vinna með vatn og gera nemendum grein fyrir mikilvægi þess að fara vel með vatnsauðlindina.
Þemað fellur vel að grunnþáttunum sjálfbærni, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi og heilbrigði og velferð.

Lífbreytileiki

Þróun lífs á jörðinni hefur tekið milljónir ára. Á þessum tíma hafa orðið til ótal tegundir lífvera sem eru hver annarri háðar um næringu, búsvæði og fleira. Með því að gæta að lífbreytileika jarðar styðjum við vistkerfi og hringrásir jarðarinnar sem veita okkur loft, vatn, fæðu og fleira. Lífbreytileiki er eitt af þemum Skóla á grænni grein.

Hvað er lífbreytileiki (e. biodiversity, biological diversity)?

Þróun lífs hér á Jörð hefur tekið milljónir ára. Á þessum milljónum ára hafa orðið til ótal tegundir lífvera sem mynda samhangandi lífkerfi. Allar þessar lífverur, lífform og lífsamfélög eru hluti af lífbreytileika Jarðarinnar. Lífbreytileiki, eða líffræðileg fjölbreytni, tekur þannig til fjölbreytileika allra lífverutegunda Jarðarinnar, þ.e. plantna, dýra, sveppa og örvera. Hann tekur einnig til erfðabreytileika innan og meðal þeirra sem og fjölbreytileika vistkerfa og samspils lífvera innan þeirra. Vistkerfi eru samfélög plantna, dýra, sveppa og örvera og samspil þeirra við umhverfi sitt. Vistkerfi mynda grundvöll þess að líf þrífist hér á Jörð.

Af hverju er lífbreytileiki mikilvægur?

Þessi mikla fjölbreytni lífs er eitt af megineinkennum Jarðarinnar en ekki er vitað hvort líf sé að finna annars staðar í alheiminum. Allar tegundir eru öðrum háðar um næringu, búsvæði og fleiri þætti. Eins og aðrar tegundir er maðurinn hluti af þessari heild, við eigum nánast allt okkar undir lífbreytileikanum. Sem dæmi má nefna hráefni til iðnaðarframleiðslu, eldsneyti og lyf auk næringar og búsvæðis. Þá er ótalið hreint loft og hreint vatn en heilbrigð vistkerfi eru ein meginforsenda skilvirkrar hreinsunar vatns og lofts. Þessar afurðir vistkerfanna kallast vistkerfaþjónusta. Samspil lífvera innan vistkerfa er flókið og margbreytilegt og sé einn eða fleiri hlekkir teknir út getur það valdið röskun sem hefur alvarlegar afleiðingar fyrir kerfið í heild. Það sama á við ef ný framandi tegund bætist við vistkerfi. Vistkerfi eru því viðkvæmar heildir fjölbreyttra lífvera sem mikilvægt er að vernda. Röskun á vistkerfum og hnignun lífbreytileika er talin hafa alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu mannkyns sem og annarra tegunda hér á Jörð.

Þemað fellur vel að grunnþáttunum sjálfbærni, jafnrétti og lýðræði og mannréttindi

Umhverfissáttmáli

Eitt af skrefunum sjö er umhverfissáttmáli sem lýsir í stuttu máli umhverfismarkmiðum skólans. Umhverfissáttmáli Ársólar er eftirfarandi:

Ungbarnaleikskólinn Ársól leggur áherslu á að börnin fái að kynnast náttúrunni sinni og upplifa og njóta hennar á eigin forsendum. Við förum vel með náttúruauðlindirnar, spörum orku, flokkum úrgang og endurnýtum það sem er hægt. Við leggjum áherslu á að börnin noti efnivið úr náttúrunni og læri að endurnýtum efni til sköpunar. Við viljum hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið og vera góð fyrirmynd í umhverfismálum.

Nánari upplýsingar um Grænfánann og Skóla á grænni grein má finna á vefsíðu Landverndar.

© 2016 - Karellen