Ársól opnaði í desember 2008 og var formlega vígður 19.febrúar 2009. Skólinn er sjálfstætt starfandi leikskóli rekinn af Skólum ehf, sem er með þjónustusamning við Reykjavíkurborg. Skólar ehf. reka 6 leikskóla sem allir vinna eftir Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur.

Ársól er Heilsuleikskóli og geta um 60 börn, á aldrinum níu mánaða til þriggja ára, dvalið þar samtímis á þremur aldursblönduðum deildum. Deildirnar heita Sjónarhóll, Sólheimar og Sunnukot. Litið er á leikskólann sem eina heild og börn á öllum deildum hittast reglulega í útiveru, hreyfistundum, söngstund og í frjálsum leik í sameiginlegum sal skólans. Í salnum fara einnig fram markvissar hreyfistundir undir leiðsögn fagstjóra.

Markmið leikskólans er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik. Í einföldu máli er hugmyndafræðin sú að ef barn fær hollan og næringaríkan mat og mikla hreyfingu ásamt góðri hvíld spretti fram aukin þörf til að skapa.

Markmið heilsustefnunnar er fyrst og fremst að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu. Í dag eru 25 heilsuleikskólar víðsvegar um landið sem hver um sig hefur sín einkenni og áherslur auk þeirra þriggja þátta sem einkenna heilsustefnuna. Þessir þættir eru næring, hreyfing og sköpun.
Í næringu er lögð áhersla á hollt heimilisfæði þar sem markmiðið er að auka grænmetis og ávaxtaneyslu og að nota fitu, salt og sykur í hófi. Við samsetningu matseðla er tekið mið af markmiðum Embættis Landlæknis varðandi næringu barna. Í heilsustefnunni er unnið markvisst með hreyfingu og sköpun á þann hátt að öll börn fá skipulagðar stundir með sérhæfðum kennurum. Við erum með fagstjóra í hreyfingu sem sér um hreyfistundirnar í salnum okkar þar sem börnin fara í þrautabrautir og alls konar leiki sem efla fín- og grófhreyfingar þeirra.

Ársól er einnig Heilsueflandi leikskóli sem er verkefni á vegum Embætti landlæknis og vorum við fyrsti leikskólinn á Íslandi til að sækja formlega um þátttöku eftir að hafa verið þróunarskóli verkefnisins síðan 2013. Verkefnið er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi þeirra. Hægt er að lesa sig til um verkefnið hér.

Haustið 2010 fór Ársól á „græna grein", en skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja umhverfisstefnu í skólum. Þeir skólar sem vilja komast á græna grein í umhverfismálum leitast við að stíga skrefin sjö. Þessu marki náðum við í september 2015 þegar Ársól fékk Grænfánann afhendan í fyrsta skipti. Grænfánaleikskólar verða að halda áfram að vinna að umhverfismennt og leitast við að þróa áfram starf sitt. Mælt er með að hver leikskóli vinni að endurnýjun viðurkenningarinnar á tveggja ára fresti. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Ársól er nú að vinna að því að öðlast sinn fjórða fána og er á áætlun að úttekt fari fram vorið 2024.

Hægt er að sækja um pláss á heimasíðunni okkar undir flipanum ,,Leikskólaumsókn". Einnig er hægt að sækja um á heimasíðu Skóla ehf, www.skolar.is

© 2016 - Karellen