Við bjóðum ykkur foreldra/forráðamenn og barnið ykkar velkomin í ungbarnaleikskólann Ársól.

Opnunartími leikskólans
Leikskólinn er opinn virka daga frá kl. 7:45 - 16:30.
Leikskólinn er lokaður á starfs- og skipulagsdögum en það eru samtals 6 virkir dagar yfir skólaárið.

Dvalarsamningur
Allir foreldrar skrifa undir dvalarsamning þegar barnið byrjar leikskólagöngu sína og biðjum við foreldra um að kynna sér ákvæði hans vel. Í honum er m.a. að finna upplýsingar um dvalartíma barnsins. Við viljum biðja foreldra um að fara ekki fram yfir þann tíma sem samið hefur verið um. Vinnutími starfsmanna er skipulagður með tilliti til dvalarsamninganna.

Að koma og fara
Þegar barnið kemur í leikskólann á að fylgja því inn á sína leikstofu og afhenda starfsmanni og þegar barnið er sótt er mikilvægt að láta starfsmenn vita. Mjög mikilvægt er að foreldrar kveðji barnið. Upplýsingatöflur í fataherbergjum leikskólans eru ætlaðar til að koma upplýsingum á framfæri við foreldra/forráðamenn. Fylgist vel með upplýsingatöflunni á samt tilkynningum/skilaboðum í Karellen.

Klæðnaður / Aukaföt
Mikilvægt er að klæðnaður barnanna sé þægilegur þannig að hann hefti ekki leikgleði þeirra. Klæðið börnin eftir veðri en hafið það ætíð hugfast að börn hreyfa sig mikið við leik úti og geta því svitnað ef þau eru mikið klædd. Nauðsynlegt er að barnið hafi með sér aukafatnað og mikilvægt er að merkja fatnaðinn. Í leikskólanum vinnum við með ýmis efni, s.s. lím og málningu sem geta farið í föt barnanna þó svo starfsfólk leiti allra leiða til að svo verði ekki. Vinsamlegast takið tillit til þess og klæðið börnin við hæfi. Fötin eru ekki tryggð fyrir þessu.

Merkja eigur barnanna
Mikilvægt er að merkja allar eigur barnanna, bæði skó, föt og snuð til þess að koma í veg fyrir að eigurnar fari í röng hólf og rétt snuð rati í rétta munna. Við ítrekum mikilvægi þess að merkja allar eigur barnanna vel, við tökum ekki ábyrgð á að þessir hlutir týnist. Það er hægt að panta merkingar á fatnað og skó t.d. á www.rogn.is, www.merkt.is og fyrir snuð t.d. á www.navnesutten.dk og www.mambaby.com. Að öðrum kosti er æskilegt að merkja með nafnalímmiða.

Það sem þarf að vera til staðar í leikskólanum
2-3 samfellur
2-3 sokkabuxur
2-3 Létt síðerma peysa
2-3 Síðbuxur
Inniskór
Sokkar ef ekki sokkabuxur

Föt til að sofa í (ef börnin sofa úti), góðan vagnapoka eða sambærilegt
Teppi/létta sæng og koddi (ef börnin sofa inni)
Snuð -merkt, ekki er tekið á móti ómerktum snuðum

Regnföt
Kuldagalli
Tvenn pör af hlýjum og liprum vettlingum
Ullarsokkar
Þykk húfa
Þunn húfa (eða buff yfir sumarmánuðina)
Striga/kuldaskór og stígvél eða góða regnhelda kuldasokka fyrir þau börn sem ekki eru byrjuð að ganga

Auka stútkanna/vatnsbrúsi fyrir vatnsdrykkju yfir daginn

Taupoki fyrir óhrein föt

Mikilvægt er að í öllum vögnum séu beisli, flugnanet og regnplöst til staðar - Það er á ábyrgð foreldra að vel sé gengið frá vagninum þegar mætt er í leikskólann í upphafi vikunnar. Foreldrar bera ábyrgð á að beisli séu rétt stillt fyrir barn sitt og að regnplast og flugnanet sitji vel á vagninum og séu vel með farin.

Koma með myndir fyrir fjölskylduvegginn

Dagskipulag Ársólar

7:45 Leikskólinn opnar
8:20-8:45 Morgunmatur og róleg stund
9:00 Leiktími/ Hópastarf/ Hreyfing/ Útivera
9:50 Ávaxtatími
10:10 Leiktími/ Bleiuskipti/ Tiltekt
10:30 Söngstund*
10:45 Hádegismatur*
11:30 Hvíld*
Leiktími
14:30 Nónhressing
Leiktími / Útivera
16:30 Leikskólinn lokar
Tæma töskur og hólf


Það eru mörg börn sem nota fataherbergin og til þess að allir hafi nægilegt pláss er nauðsynlegt að tæma töskur á mánudögum og setja föt barnsins í hólfið. Hvert barn á sinn snaga fyrir útifötin í fataherbergi og sitt box undir aukaföt inn á deild. Það er því óþarfi að geyma töskurnar í leikskólanum.
Á föstudögum eru útiföt tekin heim þannig að engin föt séu á snögunum eða í svörtu körfunum svo hægt sé að þrífa vel hillurnar í fataherbergjunum. Aukaföt mega vera í leikskólanum, en vinsamlegast yfirfarið boxin reglulega.

Vagnar
Það er í boði að geyma vagnana í leikskólanum á virkum dögum en það þarf að taka alla vagna heim um helgar svo hægt sé að þrífa vel hjá okkur. Þeir vagnar sem eru skildir eftir í lok vikunnar verða hafðir úti og eru ekki á ábyrgð leikskólans. Gott er að hafa vagnana merkta.

Bleyjur
Boðið er upp á bleyjur í Ársól gegn vægu gjaldi, kr.2,500 á mánuði. Foreldrum er að sjálfsögðu frjálst að koma með bleyjur að heiman og fá þau börn merkt hillupláss fyrir bleyjurnar inni á deild. Nauðsynlegt er að hafa alltaf nóg af bleyjum til staðar. Þegar það vantar bleyjur er settur miði á hólf barnsins eða skilaboð send til foreldra í gegnum Karellen appið en foreldrar geta einnig fylgst sjálfir með bleyjumálum með því að kíkja í hillurnar inni á deild.

Hvíld
Öll börnin leggja sig eftir hádegismatinn. Þau sem sofa inni taka með sér teppi, kodda og jafnvel lítinn bangsa að heiman til að hafa hjá sér í hvíldinni. Það að koma með sitt eigið teppi veitir þeim öryggi og auðveldar þeim að venjast því að leggja sig í leikskólanum. Gott er að hafa lítið og létt teppi svo öll börnin hafi nægilegt pláss í hvíldinni. Í lok vikunnar eru koddarnir og teppin send heim með börnunum svo hægt sé að þvo þau.
Þau börn sem nota snuð í hvíldinni koma með þau í leikskólann og geyma þau þar.

Fjarvistir og veikindi

Leyfi og veikindi skal tilkynna til leikskólans í gegnum Karellen eða síma. Öll veikindi barna eru skráð í heilsuskráningu hvers barns og er liður í heilsustefnunni sem Ungbarnaleikskólinn Ársól starfar eftir. Mikilvægt er að láta upplýsingar um hvað sé að hrjá barnið fylgja veikindatilkynningunni. Æskilegt er að tilkynna fjarvistir barns eins snemma morguns og unnt er, eigi seinna en kl.9.00 svo hægt sé að skipuleggja daginn miðað við barnafjölda. Ef barn veikist í leikskólanum er haft samband við foreldra og þess óskað að barnið verði sótt. Barnið skal hafi náð fullum bata eftir veikindi svo þau geti tekið fullan þátt í starfsemi leikskólans. Við tökum ekki á móti börnum sem þurfa að vera inni vegna þess að þau eru alveg að verða veik. Börn eru smitberar á þeim tíma og geta því smitað önnur börn. Læknar hafa staðfest að börn verða ekki veik af því að vera úti í fersku lofti og að börnum með kvef verður ekki meint af því. Þó er hægt að verða við því að barn fari síðast út og fyrst inn eftir útiveru. Almennt er miðað við að börn nái einum sólarhring einkennalaus heima í kjölfar veikinda, en tvo sólarhringa þegar um uppköst og niðurgang er að ræða. Ekki er veitt undanþága frá þessari reglu.

Óhöpp og slys
Börnin eru tryggð í leikskólanum. Einn starfsmanna er öryggisfulltrúi leikskólans, sem hefur yfirumsjón með öryggismálum barnanna. Ef slys eða óhöpp verða eru þau skráð í slysaskýrslur, sem eru síðan notaðar til að athuga hvort slysagildrur eru í leikskólanum eða á leiksvæðinu. Ef barn slasast er haft samband við foreldra og þau sjá um að fara með barn til læknis ef þörf er á. Ef um alvarlegt slys er að ræða er alltaf hringt á sjúkrabíl og svo haft samband við foreldra.

Lyfjagjöf í leikskólanum
Lyf eru ekki gefin í leikskólanum nema ef um er að ræða astma-, ofnæmis– og ofvirknilyf í leikskólum og þá eftir skriflegum fyrirmælum frá lækni. Lyfin eru geymd á öruggum stað. Ekki er hægt að verða við því að gefa sýklalyf, né lyf af öðrum toga, í leikskólanum. Reglur þessar eru settar til að stuðla að öryggi barna í leikskóla. Samkvæmt þessu megum við ekki gefa börnum önnur lyf en fyrr greinir og biðjum við foreldra að virða það.

Börn að sækja börn
Börnum undir 12 ára aldri er ekki heimilt að sækja börn í leikskólann. Biðjum við foreldra um að virða þessa reglu. Einnig biðjum við ykkur um að láta vita ef einhver annar en foreldri sækir barnið í leikskólann.

Leikföng að heiman
Ekki er æskilegt að börnin komi með leikföng að heiman nema í tengslum við sérstaka viðburði og skal þá vera vel merkt með nafni barnsins. Það er þó sjálfsagt að þau komi með bangsa eða tuskudýr sem veitir þeim öryggi í aðlögunarferlinu. Við getum þó ekki tekið ábyrgð á því ef þessir hlutir skemmast eða týnast hjá okkur.

Sumarlokun
Öll börnin taka 4 vikur samfleytt í sumarfrí. Leikskólinn er lokaður í 4 vikur og lokunartími Ársólar verður vel auglýstur seinna.

Foreldrasamstarf
Gott samstarf foreldra og leikskóla er forsenda fyrir góðri líðan barnsins í leikskólanum. Samvinna foreldra og leikskóla þarf að byggjast á gagnkvæmri virðingu og opnum samskiptum. Foreldrum er ávallt velkomið að dvelja í leikskólanum og taka þátt í starfinu. Foreldraviðtöl eru tvisvar á ári. Fyrsta viðtal er ca. þremur mánuðum eftir að barn byrjar í leikskólanum og þá er farið yfir hvernig ykkur og okkur finnst ganga í skólanum. Seinna viðtalið er á vorönn og þá er farið í þroskaþætti barnsins. Það er sjálfsagt að biðja um viðtal hvenær sem er og þá er best að hafa samband við deildarstjóra til að finna tíma fyrir viðtalið.

Samkvæmt leikskólalögum á að vera foreldraráð í hverjum leikskóla og í foreldráði sitja að lágmarki þrír foreldrar ásamt leikskólastjóra. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi. Á skólaárinu 2023-2024 sitja þrír foreldrar í foreldraráði ásamt leikskólastjóra.

Afmæli barnanna
Afmælisdagar barnanna eru stórir dagar í lífi þeirra og er að sjálfsögðu haldið upp á hann í leikskólanum. Barnið fær kórónu og sunginn er afmælissöngurinn. Einnig fær barnið val um að borða af sérstökum myndskreyttum diski. Við sjáum um að gera daginn sérstakan fyrir barnið með ýmsum hætti en ekki er boðið upp á að koma með veitingar í leikskólann.

Skipulags– og námskeiðsdagar
Starfsdagar eru 6 á ári. Þá notar starfsfólk til að skipuleggja, undirbúa og endurmeta starf sitt. Leikskólinn er lokaður á þessum dögum og eru þeir auglýstir með a.m.k. 4 vikna fyrirvara á heimasíðunni og með tölvupósti til foreldra.

Flutningur á milli leikskóla
Þegar börn komast inn í Ársól detta þau út af biðlista hjá Reykjavíkurborg. Mikilvægt er að sækja um flutning sem fyrst svo þau séu áfram á lista hjá borginni. Þetta er hægt að gera inn á Rafrænni Reykjavík.

Dvalargjöldin
Gjöldin eru greidd fyrirfram, greitt er fyrir einn mánuð í senn og gjald lækkar ekki þó barn sé fjarverandi. Skuldi foreldrar tvo mánuði er barninu sagt upp leikskólarýminu.
Gagnkvæmur uppsagnafrestur er einn mánuður og miðast við 1. og 15. hvers mánaðar. Hægt er að sækja um breytingar á dvalartímum hjá skólastjóra fyrir 15. hvers mánaðar.

Aukagjald er innheimt þegar barn er sótt of seint eða kemur of snemma þ.e. 200kr fyrir hvern byrjaðan stundarfjórðung en 400kr ef kennarar hafa ekki verið látnir vita af seinkuninni. Ef barn er sótt eftir lokun skóla greiðist 1600kr aukagjald fyrir hvern byrjaðan stundarfjórðung.

Starfsfólk leikskóla
Leikskólastjóri er yfirmaður leikskóla og ber ábyrgð á rekstri leikskólans og að unnið sé eftir Aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrá heilsuleikskólans Ársól.
Deildarstjóri ber ábyrgð á uppeldi og menntun barnahópsins á sinni deild. Hann ber einnig ábyrgð á foreldrasamstarfi á deildinni.
Kennarar vinna í samstarfi við deildarstjóra að uppeldi og menntun barnanna.
Fagstjórar sjá um skipulagningu og kennslu í hreyfingu og listsköpum.
Matráður og starfsfólk í eldhúsi sjá um samsetningu matseðla, innkaup, matartilbúning og þvotta.
Ræstitæknar sjá um þrif.

Allt starfsfólk leikskólans er bundið þagnarskyldu og þær upplýsingar sem starfsmaður fær um barn eru trúnaðarmál.
Þagnarskylda helst þó látið sé af starfi.

© 2016 - Karellen