Ársól er heilsuleikskóli sem starfar eftir Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur þar sem markmiðið er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik og starfi. Skólinn er einnig þátttökuskóli í verkefninu Heilsueflandi leikskóli á vegum Embættis landlæknis. Einkunnarorð Skóla ehf. eru heilbrigð sál í heilbrigðum líkama

Heimasíða Heilsustefnunnar

Heimasíða Heilsueflandi

Upphaf Heilsustefnunnar

Upphaf Heilsustefnunnar má rekja til Unnar Stefánsdóttur (1951-2011) leikskólastjóra í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi sem hafði frumkvæði að mótun stefnunnar fyrir leikskóla. Markmið hennar er að auka gleði og vellíðan barnanna og lögð er áhersla á næringu, hreyfingu og sköpun í leik og starfi.

Í einföldu máli er hugmyndin sú að ef barn fær hollan og næringarríkan mat og mikla hreyfingu hafi það aukna þörf til að skapa. Urðarhóll var fyrsti leikskólinn til að fá titilinn heilsuleikskóli og var vígður sem slíkur 1. september 1996. Í kjölfarið tóku fleiri leikskólar upp heilsustefnuna og Samtök heilsuleikskóla voru stofnuð í nóvember 2005. Unnur Stefánsdóttir var fyrsti formaður samtakanna. Í júní 2020 eru starfræktir 23 leikskólar á landinu sem eru viðurkenndir heilsuleikskólar og einn er á heilsubraut, á leið sinni til að uppfylla viðmið til að fá formlega viðurkenningu sem heilsuleikskóli.

Heilsuleikskóli

Til að öðlast titilinn Heilsuleikskóli þarf að uppfylla ákveðin viðmið og í kjölfarið fá leikskólarnir afhentan fána eða skjöld með heilsumerkinu ásamt viðurkenningarskjali. Heildarsýn skólans þarf að miðast við heilsueflingu í hvívetna. Lögð er áhersla á fjölbreytta næringu, markvissar hreyfistundir og að börnin fái tækifæri til að skapa í leik og starfi. Kennarar í heilsuleikskóla verða að gera sér grein fyrir mikilvægi uppeldishlutverksins og tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart heilbrigðum lífsstíl. Ársól fékk vígslu sem heilsuleikskóli þann 13. júní 2013.

Heilsubók barnsins

Kennarar Urðarhóls gáfu út Heilsubók barnsins og Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir leikskólakennari hannaði merki heilsuleikskóla. Heilsubók barnsins er gæðamatskvarði Heilsuleikskóla og metur hvort settum markmiðum heilsustefnunnar er náð. Bókin hefur að geyma útfærð skráningarblöð varðandi þroska og ýmsar upplýsingar um barnið. Skráningin gerir ennfremur kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum.

Heilsubók barnsins var miðuð út frá tveggja til sex ára börnum og því gat Ársól ekki nýtt sér það rit. Eftir aðalfund Samtaka Heilsuleikskóla árið 2010 var ákveðið að skipa starfshóp til að semja „Ungbarnaheilsubók“. Sú vinna þróaðist út í rit sem kallast „Áhersluþættir Heilsustefnunnar“. Markmið þess er að ná fram sameiginlegri sýn á áhersluatriðum heilsuleikskóla. Kennarar og foreldrar fara saman yfir áhersluþættina og varpa ljósi á hvernig hægt er að gera umhverfið hvetjandi fyrir börnin til aukinnar færni þeirra og þroska. Að auki var skráningarblaði fyrir börn yngri en tveggja ára bætt inn í heilsubókina til að skrá fyrir foreldraviðtöl.

Áhersluþættir Heilsustefnunnar

Næring

Leikskólinn stuðlar að góðum matarvenjum og hollustu með áherslu á ferskleika og fjölbreytni. Lögð er áhersla á aukna grænmetis- og ávaxtaneyslu barnanna og að fara hóflega í neyslu á sykri, salti og fitu. Vatn er aðgengilegt fyrir börn og starfsmenn. Við samsetningu matseðla er tekið mið af ráðleggingum Embættis landlæknis varðandi næringu barna ásamt því að næringarfræðingur Samtaka heilsuleikskóla fer yfir matseðla og kemur með góð ráð og tillögur.

næringarstefnan_2019 (1).pdf

Hreyfing

Í Heilsustefnunni er unnið markvisst með hreyfingu á þann hátt að öll börn fá skipulagðar stundir 1-2 sinnum í viku. Í Ársól fá öll börn skipulagðar hreyfistundir að minnsta kosti tvisvar í viku með fagstjóra í hreyfingu í krefjandi umhverfi, bæði innan veggja leikskólans sem utan. Markmið með hreyfistundum er að efla alhliða þroska barnsins, líkamlega og andlega vellíðan sem stuðlar að aukinni félagsfærni og leikgleði.

Í aðalnámskrá leikskóla (2011) kemur fram að skólar sem leggja áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi leggja grunninn að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar.

Sköpun

Mikilvægt er að tengja saman fjölbreytt tjáningarform sköpunar, s.s í leik, máli, myndlist, tónlist, hreyfingu og dansi. Í Ársól er hvert tækifæri nýtt til sköpunar og lögð er áhersla á að vinna með einn eða fleiri þætti sköpunar í einu. Leikumhverfi barnanna ýtir undir sköpunargleði, eflir sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna ásamt því að viðhalda forvitni þeirra. Ferlið sjálft skiptir meira máli en útkoman. Börnin fá að auki tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið og þjálfa upp færni sem leiðir af sér að geta þeirra þróast og eflist.

© 2016 - Karellen